Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 216. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 915  —  216. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um útgáfu og meðferð rafeyris.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Kára Kárason frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Berglindi Helgu Jónsdóttur og Lindu Kolbrúnu Björgvinsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Páll Kolka Ísberg og Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá Seðlabanka Íslands, Leó Kolbeinsson frá Neytendastofu, Vigdísi Hauksdóttur, Halldóru Steindórsdóttur, Erlu Þ. Pétursdóttur og Ásgeir Jónsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Almennt um frumvarpið og tengsl þess við lög um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011.
    Í frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB, um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 10. nóvember 2010. Tilskipunin breytir tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og nemur úr gildi tilskipun 2000/46/EB. Nýja tilskipunin, rafeyristilskipunin (EMDII), er ásamt tilskipun 2007/64/EB (PSD), sem innleidd var með lögum um greiðsluþjónustu, nr. 120/2011, afrakstur heildarendurskoðunar á samevrópsku regluverki á sviði rafrænnar greiðslumiðlunar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákvæði löggjafar um rafeyri verði færð úr lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og komi þess í stað fram í heildstæðum lagabálki. Rafeyristilskipunin gerir ráð fyrir að um fulla samræmingu sé að ræða (e. full harmonisation) sem þýðir að heimildir til frávika frá efnisákvæðum hennar við innleiðingu, nánar tiltekið á þeim sviðum sem gildissvið hennar nær til, koma aðeins til greina að því marki sem tilskipunin heimilar það sérstaklega.
    Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að tekin verði upp í íslenskan rétt reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins 924/2009/EB um greiðslur yfir landamæri er tengjast framangreindum tveimur tilskipunum (PSD og EMDII) og enn fremur lögum nr. 146/2004, um greiðslur yfir landamæri í evrum. Þessari reglugerð er ætlað að tryggja að gjaldtaka vegna framkvæmdar greiðslna yfir landamæri í evrum verði hliðstæð því sem gerist innanlands vegna greiðslna að fjárhæð allt að 50.000 evrum.
    Í athugasemdum frumvarpsins er á það bent að greiðslumiðlun og greiðslukerfi séu undirstöður hagkerfisins sem sjá um tilflutning fjármagns í þágu einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og ríkja. Lög um greiðsluþjónustu skilgreina greiðslukerfi sem kerfi sem notuð eru til að yfirfæra fjármuni með formlegu og stöðluðu fyrirkomulagi og sameiginlegum reglum um meðferð, greiðslujöfnun og/eða uppgjör greiðslna. Má í þessu sambandi vekja athygli á tveimur úttektum Seðlabanka Íslands, annars vegar á kreditkortaviðskiptum og hins vegar á debetkortamarkaðnum. Fyrri úttektin er frá miðju ári 2011 og ber heitið „Kortajöfnun og fyrirkomulag greiðsluuppgjörs“ en hin er frá apríl 2012 og ber yfirskriftina „Færsluflæði og uppgjör í debetkortaviðskiptum“.
    Löggjöfin gerir ráð fyrir að greiðslukerfi séu að meginstefnu til þrenns konar: Kerfislega þýðingarmikil greiðslukerfi, sbr. lög nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum (t.d. stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands og jöfnunarkerfi Greiðsluveitunnar). Innanhússgreiðslukerfi, sbr. leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins 1/2005 (t.d. afgreiðslu- og netbankakerfi einstakra fjármálafyrirtækja/-samstæðna). Önnur greiðslukerfi sem falla undir 7. gr. laga um greiðsluþjónustu (t.d. debetkortakerfi Reiknistofu bankanna).
    Með greiðslu er átt við þá aðgerð sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu á frumkvæði að með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni. Með fjármunum er átt við peningaseðla og mynt, inneign á greiðslureikningum og rafeyri. Frumvarpið gerir ráð fyrir að með rafeyri sé átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, þ.m.t. á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni, í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum.
    Með greiðsluþjónustu er einkum átt við hefðbundin banka- og kortaviðskipti, þ.e. aðgerðir er tengjast rekstri greiðslureikninga sem gera mögulegt að framkvæma greiðslu. Þjónustan getur einnig falist í útgáfu greiðslumiðla og/eða færsluhirðingu en með hinu fyrra er almennt átt við hvers kyns persónubundinn búnað og/eða verklag sem þjónustuveitandi og notandi greiðsluþjónustu koma sér saman um og notandinn notar til að gefa greiðslufyrirmæli. Debet- og kreditkort eru nefnd sem dæmi um áþreifanlega greiðslumiðla og þá er notkun heimabanka, notendanafns og leyninúmera tekin sem dæmi um verklag við veitingu greiðslufyrirmæla. Rafeyrir er aftur á móti andlag rafrænnar greiðslumiðlunar (fjármunir) og er í því sambandi lögð áhersla á það hugtaksskilyrði að hann sé greiddur fyrir fram.
    Í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands, útgefnu í júní á þessu ári, er gert ráð fyrir að helstu þjónustuveitendur verði fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki og greiðslustofnanir. Fjármálafyrirtæki, þ.e. viðskiptabankar, sparisjóðir og lánastofnanir, eru með víðtækustu starfsheimildirnar þar sem þessir aðilar hafa heimild til að taka á móti innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi, gefa út rafeyri og veita greiðsluþjónustu. Rafeyrisfyrirtæki hafa þrengri starfsheimildir þar sem þeim er heimilt að hafa með höndum útgáfu rafeyris og greiðsluþjónustu. Greiðslustofnanir hafa leyfi til starfrækslu greiðsluþjónustu og njóta þrengstra starfsheimilda.
    Einn megintilgangur laga um greiðsluþjónustu var að jafna samkeppnisskilyrði á sviði greiðslukortaviðskipta. Því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er með sambærilegum hætti ætlað að styðja við samkeppni á rafeyrismarkaði og bæta samkeppnisstöðu rafeyrisfyrirtækja sem vegna þrengri starfsheimilda hafa almennt ekki þörf fyrir jafn kostnaðarsama yfirbyggingu og hefðbundin fjármálafyrirtæki.
    Sem dæmi um misjafnar kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja og greiðslustofnana má bera saman 14. gr. laga um fjármálafyrirtæki er varðar stofnfé viðskiptabanka, lánafyrirtækja, sparisjóða og rafeyrisfyrirtækja, 10. gr. laga um greiðsluþjónustu er varðar stofnfé greiðslustofnunar og 11. gr. þessa frumvarps er varðar stofnfé rafeyrisfyrirtækis. Frumvarpsgreinin gerir ráð fyrir að stofnfé rafeyrisfyrirtækis skuli á hverjum tíma nema að lágmarki jafnvirði 350 þús. evra í íslenskum kr. en gildandi lög um fjármálafyrirtæki gera ráð fyrir að rafeyrisfyrirtæki skuli að lágmarki hafa yfir að ráða hlutafé sem nemur 1 milljón evra.
    Markaður rafrænnar greiðslumiðlunar hefur farið sívaxandi á liðnum árum, m.a. fyrir tilstilli tækniframfara og aukinnar alþjóðavæðingar. Samfara hafa áhyggjur opinberra aðila af þessari þróun mála farið vaxandi, m.a. í ljósi skipulagðrar glæpastarfsemi sem ýtir undir þörf á virku eftirliti með rafeyrisfyrirtækjum og greiðslustofnunum. Vinsældir rafeyris eru m.a. skýrðar með vísan til þess að viðskiptin geti verið hagkvæmari en hefðbundin kortaviðskipti. Vakin skal athygli á ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu þar sem fram kemur að um greiðsluþjónustuveitendur og notendur greiðsluþjónustu kunni að gilda takmarkanir sem leiða má af lögum um gjaldeyrismál.
    Fjármálafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki og greiðslustofnanir munu verða starfsleyfis- og eftirlitsskyld hjá Fjármálaeftirlitinu. Í athugasemdum frumvarpsins kemur fram að ekkert rafeyrisfyrirtæki muni hafa verið starfandi á Íslandi frá setningu laga um fjármálafyrirtæki en til marks um aukinn áhuga hefur verið vísað til þess að Fjármálaeftirlitinu hafi borist tilkynningar frá um hundrað evrópskum greiðslustofnunum um fyrirhugaða veitingu rafrænnar þjónustu yfir landamæri.

Nánar um efni frumvarpsins.
I. kafli frumvarpsins (almenn ákvæði).
    Frumvarpinu er ætlað að gilda um útgáfu og meðferð rafeyris hér á landi en í a-lið 2. gr. er mikilvæg undanþága frá gildissviðinu. Ákvæðið gerir að meginstefnu ráð fyrir að tilgreind peningaleg verðmæti sem geymd eru á miðlum sem aðeins er unnt að nota innan „lokaðs kerfis“ falli ekki undir gildissvið laganna ef sú fjárhæð sem geymd er á miðlinum á hverjum tíma fer ekki yfir 100.000 kr. Sem dæmi um slíka undanþágu eru nefnd ýmiss konar fyrirframgreidd kort, svo sem bensínkort og gjafakort sem aðeins er hægt að nota innan afmarkaðs þjónustukerfis tiltekins þjónustuveitanda eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu (lokað kerfi), svo fremi sem geymd fjárhæð fer ekki yfir 100.000 kr. Fjárhæðarmarkið er sett til þess að auðvelda framkvæmd eftirlits vegna fyrirsjáanlegra vandkvæða við að leggja mat á hvar mörk lokaðs kerfis liggja en við umfjöllun málsins lögðu Samtök fjármálafyrirtækja til að mörkin yrðu hækkuð eða þau felld brott þar sem með þeim væri gengið lengra en rafeyristilskipunin heimilaði (EMDII).
    Samtök fjármálafyrirtækja bentu á að gjafakort eða vildarkort sem tilheyra lokuðu kerfi væru oft og tíðum yfir umræddum mörkum og að í sumum tilvikum hefðu útgefendur „endurhlaðanlegra miðla“ takmarkaðar forsendur til þess að hafa stjórn á því hversu háar fjárhæðir berast inn á miðilinn. Sem dæmi var það nefnt þegar neytendum er gert kleift að endurhlaða miðil með því að millifæra í viðskiptabanka sínum inn á þar til gerðan tékkareikning útgefanda rafeyris sem sjálfkrafa flyst inn á miðilinn. Fjárhæðarmörkin eru að mati samtakanna líkleg til að draga úr framboði á rafeyri vegna þeirra krafna sem leiða af ákvæðum frumvarpsins fyrir útgefendur sem ekki eru í öllum tilvikum fjármálastofnanir. Leggja þau áherslu á að frekari vinna þurfi að fara fram í því skyni að skilgreina hvað telst lokað kerfi með tilliti til þeirrar rafeyrisþjónustu sem í boði er á markaðnum og þróunar á mismunandi eiginleikum og tegundum rafeyris.
    Í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til nefndarinnar frá 12. desember sl. er með hliðsjón af sjónarmiðum Samtaka fjármálafyrirtækja og að höfðu samráði ráðuneytisins við framkvæmdastjórn ESB og Electronic Money Association lagt til að fjárhæðarmörkin verði felld brott. Fram kemur að á vettvangi framkvæmdastjórnarinnar hafi verið unnið að skilgreiningu hugtaksins „lokað kerfi“ og að endurskoðun á gildissviði frumvarpsins muni fara fram þegar niðurstaða þeirrar vinnu liggur fyrir. Nefndin fellst á að fjárhæðarmörkin falli brott og leggur til breytingu þar að lútandi.

II. kafli frumvarpsins (útgáfa rafeyris og möguleiki á innlausn).
    Í II. kafla frumvarpsins, 5.–8. gr., eru ákvæði um útgáfu rafeyris og möguleika á innlausn sem varða m.a. rétt handhafa rafeyris til innlausnar án tafar og á nafnverði. Skilyrði innlausnar verða að eiga sér stoð í samningi á milli útgefanda og handhafa og verða að vera kynnt handhafa fyrir samningsgerðina. Gjaldtaka vegna innlausnar þar sem handhafi er neytandi er óheimil í vissum tilvikum og skal vera hófleg og endurspegla raunkostnað útgefanda vegna hennar. Auk þess verður að hafa í huga að fjárhæðin rýrnar stöðugt vegna verðbólgu og að engir vextir eru greiddir.
    Samtök fjármálafyrirtækja lögðu áherslu á þann skilning að heimild handhafa til þess að innleysa rafeyri án tafar og á nafnverði þyrfti að skoða í samhengi við heimild útgefanda til gjaldtöku vegna innlausnarinnar. Í minnisblaði frá 12. desember sl. lagði ráðuneytið af þeim sökum til við nefndina að við 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins verði bætt tilvísun til 8. gr. Ráðuneytið tók einnig fram að skilyrði innlausnar sem fram koma í samningi á milli útgefanda og handhafa rafeyris eigi að samrýmast eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum, sbr. 1. mgr. 23. gr. frumvarpsins.
    Upplýst var fyrir nefndinni að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda væri fjögur ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007, en að krafa vegna innláns eða verðmæta sem lögð hafa verið inn hjá fjármálafyrirtæki, opinberum sjóði eða öðrum aðila, sem hefur heimild að lögum til að taka við innlánum frá almenningi, auk vaxta af slíkum kröfum, fyrnist á 20 árum frá þeim degi er verðmætin eru lögð inn, sbr. 4. gr. sömu laga. Sumir álitu að þörf væri á að skilgreina nánar þann tíma sem handhafi hefur til þess að innleysa rafeyri eftir lok samnings við útgefanda. Tekið var sem dæmi að liðnum tólf mánaða gildistíma gjafakorts mætti handhafi ekki nota kortið til greiðslu heldur gæti hann óskað innlausnar gjafakortsins við útgefanda með það fyrir augum að fá til baka peningaleg verðmæti sín.
    Samtök fjármálafyrirtækja lögðu til að innlausnartími rafeyris eftir samningslok yrði sex ár og undir þá tillögu var tekið af hálfu ráðuneytisins sem telur að almennur fjögurra ára fyrningarfrestur muni að óbreyttu eiga við í umræddum tilvikum. Á það fellst nefndin ekki og telur nær að um fyrninguna fari eftir hliðstæðri reglu og gildir um innlán sem fyrnast á 20 árum en með þeim blæbrigðamun að upphaf fyrningar í tilviki rafeyrisins miðist almennt við lok samnings eins og að framan greinir. Þá telur nefndin mikilvægt að það skilyrði fyrningar innlána sem fram kemur í 2. mgr. 4. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda verði einnig látið taka til rafeyris, þ.e. að viðtakandi fjármuna veki athygli kröfuhafa eða erfingja hans, tímanlega og á sannanlegan hátt, á að hann sé að fyrnast.

III. kafli frumvarpsins (rafeyrisfyrirtæki).
    Frumvarpið gerir skv. 6. tölul. 4. gr. ráð fyrir að útgefendur rafeyris geti verið rafeyrisfyrirtæki skv. III. kafla, fjármálafyrirtæki með starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða eða lánafyrirtækis, seðlabankar og opinber yfirvöld, að greindum skilyrðum. Þessir aðilar að frátöldum rafeyrisfyrirtækjum þurfa ekki að sækja sérstaklega um starfsleyfi á grundvelli III. kafla frumvarpsins.
    Í III. kafla frumvarpsins, 9.–39. gr., eru ákvæði um stofnsetningu, rekstur og starfsheimildir rafeyrisfyrirtækja. Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. er rafeyrisfyrirtæki lögaðili sem fengið hefur starfsleyfi til að gefa út rafeyri hér á landi eða í öðru aðildarríki. Fjármálaeftirlitið veitir leyfi á grundvelli umsóknar og heldur skrá yfir leyfishafa sem geta ýmist notið fulls starfsleyfis skv. 15. gr. eða takmarkaðs skv. 16. gr.
    Fullt starfsleyfi veitir heimild til útgáfu rafeyris í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins en takmarkað starfsleyfi gildir aðeins hér á landi. Samkvæmt 1. gr. gilda ákvæði 11.–14. gr. frumvarpsins um stofnfé, eiginfjárgrunn og meðferð virkra eignarhluta ekki um rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi og ekki heldur 1. mgr. 26. gr. um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda. Þá er það forsenda fyrir útgáfu takmarkaðs starfsleyfis að samanlögð áætluð útgáfa fjárhæðar rafeyris fari ekki yfir 30 millj. kr. á almanaksári, sbr. b-lið 1. mgr. 16. gr.
    Fjármálaeftirlitið veitir starfsleyfi skv. 20. gr. frumvarpsins ef umsækjandi sýnir fram á að stjórnun hans sé skýr, traust og varfærin og háð fullnægjandi eftirliti samkvæmt reglum sem eftirlitið setur. Leyfiskröfur til umsækjanda eiga að taka mið af eðli og umfangi þeirrar þjónustu sem fyrirhugað er að veita en í aðdraganda leyfisveitingar er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar Seðlabanka Íslands og annarra viðeigandi opinberra stofnana. Leyfisveitingu ber að hafna ef Fjármálaeftirlitið telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta í rafeyrisfyrirtæki ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar fyrirtækisins og sama á við ef náin tengsl rafeyrisfyrirtækis við einstaklinga og lögaðila hindra eftirlit með starfseminni.
    Samtök fjármálafyrirtækja lögðu áherslu á við umfjöllun málsins að reglur sem Fjármálaeftirlitinu yrði falið að setja, sbr. 3. mgr. 26. gr., um hvernig staðið skuli að hæfismati taki mið af eðli starfsemi fyrirtækis og umfangi reksturs. Minntu samtökin á að eitt helsta markmið tilskipunarinnar væri að jafna samkeppnisstöðu rafeyrisfyrirtækja sem almennt hafa minni þörf fyrir kostnaðarsama yfirbyggingu en hefðbundin lánafyrirtæki í ljósi þrengri starfsheimilda og minni áhættu í rekstri.
    Samkvæmt 23. gr. frumvarpsins eiga rafeyrisfyrirtæki að viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í starfsemi sinni. Fram kemur í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til nefndarinnar frá 12. desember sl. að Fjármálaeftirlitið væri langt komið með samningu reglna um hvað teljist vera eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja og að ekkert væri því til fyrirstöðu að láta þær taka til greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja, eftir því sem við á.
    Í 24. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um tilgreinda starfsemi sem rafeyrisfyrirtækjum er heimilt að hafa með höndum ásamt útgáfu rafeyris. Þar má nefna veitingu greiðsluþjónustu og aðra tengda starfsemi sem og rekstur greiðslukerfa í samræmi við lög um greiðsluþjónustu. Rafeyrisfyrirtækjum er einnig heimilt að leggja stund á hverja þá starfsemi sem ekki eru reistar skorður við í lögum en sérstaklega er tekið fram að þeim sé óheimilt að taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi. Reikningsskil rafeyrisfyrirtækis er almanaksárið en að öðru leyti gilda lög um fjármálafyrirtæki um reikningsskil og endurskoðun þess, sbr. 27. gr.
    Rafeyrisfyrirtæki eiga skv. 25. gr. frumvarpsins að varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið í skiptum fyrir rafeyri og halda þeim skýrt aðgreindum frá eigin fé sínu. Við gjaldþrot standa þeir fjármunir utan skuldaraðar að því gefnu að eigandi fjármunanna sýni fram á eignarrétt sinn, sbr. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Með vísan til dæma á öðrum sviðum réttarins, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga, taldi Fjármálaeftirlitið eðlilegt að ráðherra yrði falið að setja reglur um tryggilega varðveislu fjármuna í stað eftirlitsins eins og gert er ráð fyrir í 6. mgr. 25. gr. frumvarpsins. Á það féllst nefndin þó ekki að höfðu samráði við ráðuneytið.

IV. kafli frumvarpsins (eftirlit, réttarúrræði og viðurlög).
    Almennt gildir sú regla að hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila skal Fjármálaeftirlitinu tilkynnt um það fyrir fram. Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi en eftirlitinu ber jafnframt að viðhafa samstarf við lögbær eftirlitsstjórnvöld í aðildarríkjunum vegna starfsemi umboðsaðila, útibúa og útvistunaraðila á vegum rafeyrisfyrirtækjanna, sbr. 28.–37. gr. Í 42. og 43. gr. frumvarpsins eru viðurlagaákvæði sem annars vegar varða heimildir Fjármálaeftirlitsins til álagningar stjórnvaldssekta og hins vegar refsilagaákvæði.
    Í 41. gr. er kveðið á um rétt handhafa rafeyris til að skjóta ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Úrskurðarnefndin starfar á grundvelli samkomulags stjórnvalda, Samtaka fjármálafyrirtækja, Sambands íslenskra sparisjóða og Neytendasamtakanna en var veitt sérstök lagastoð með lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. nú 19. gr. a laga um fjármálafyrirtæki.
    Nokkrar áhyggjur komu fram af því að umrætt samkomulag er frá 8. júní 2000 og af orðalagi þess að dæma virðist það fyrst og fremst varða kvartanir viðskiptamanna fjármálafyrirtækja en verði frumvarpið samþykkt munu rafeyrisfyrirtæki með sama hætti og greiðslustofnanir ekki lengur teljast til fjármálafyrirtækja. Í minnisblaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 12. desember sl. er aftur á móti áréttað að í umræddri grein frumvarpsins er úrskurðarnefndinni veitt lögsaga til að úrskurða í samræmi við samþykktir sínar um ágreining á milli handhafa rafeyris og rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi hér á landi. Ráðuneytið vekur einnig athygli á því að vinna við endurskoðun á samþykktum nefndarinnar hafi staðið yfir í nokkurn tíma og að það leggi áherslu á að henni ljúki sem fyrst.
    Í 46. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um greiðsluþjónustu sem nauðsynlega þarf að gera við samþykkt frumvarpsins.

Athugasemdir umsagnaraðila við einstakar greinar.
    Við meðferð málsins bárust nefndinni umsagnir frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið tók afstöðu til í minnisblaði til nefndarinnar 12. desember sl. Með hliðsjón af þeim athugasemdum eru gerðar eftirfarandi breytingartillögur við frumvarpið:
     1.      Við 2. gr. Lagt er til að fjárhæðarmörkin í a-lið falli brott. Um röksemdir vísast til umfjöllunar um I. kafla frumvarpsins hér að framan.
     2.      Við 4. gr. Eftirtaldar breytingar eru lagðar til:
                  a.      Bætt verði við skilgreiningu á hugtakinu „dreifingaraðili“ og að skýringu orðsins umboðsaðili verði breytt til samræmis. Í minnisblaði frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er tekið undir sjónarmið Samtaka fjármálafyrirtækja sem lögðu til að gerð yrði grein fyrir merkingu hugtaksins „dreifingaraðili“. Fram kemur í athugasemdum frumvarpsins við 5. tölul. 4. gr. lýsing á þeim greinarmun sem er á umboðsaðila og dreifingaraðila.
                  b.      Bætt verði við skilgreiningu á hugtakinu „greiðslumiðill“, sbr. tillögu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu við meðferð málsins og með hliðsjón af ábendingum Seðlabanka Íslands.
     3.      Við 7. gr. Lagt er til að tilvísun til 8. gr. verði bætt við 1. mgr. 7. gr. auk þess sem bætt verði við ákvæði um að fyrning krafna vegna rafeyris fari samkvæmt ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda. Um röksemdir vísast til umfjöllunar um II. kafla frumvarpsins hér að framan.
     4.      Við 13. gr. Lagt er til með hliðsjón af ábendingum Fjármálaeftirlitsins að í 5. mgr. verði rætt um „lýsandi hlutfall“ í staðinn fyrir „lýsandi hlut“.
     5.      Við 14. gr. og c-lið 4. tölul. 46. gr. Eftirtaldar breytingar eru lagðar til með hliðsjón af ábendingum Fjármálaeftirlitsins:
                  a.      Í 1. og 2. mgr. 14. gr. er kveðið á um tilkynningarskyldu eiganda virks eignarhlutar yfir tilgreindum mörkum. Lagt er til að skýrt komi fram í 3. mgr. að ákvæði VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, sem eftir orðum greinarinnar er ætlað að gilda um meðferð virkra eignarhluta í rafeyrisfyrirtækjum, gildi einnig við mat á hæfi virks eiganda eftir því sem við á.
                  b.      Fjármálaeftirlitið telur ástæðulaust að setja reglur um tilkynningarskyldu eins og 4. mgr. 14. gr. gerir ráð fyrir þar sem skyldan verður leidd af 1. og 2. mgr. 14. gr. Eftirlitið telur að það sama eigi við um reglur um málsmeðferð sem ræðst af stjórnsýslulögum og mati á hæfi eiganda sem ræðst af ákvæði 3. mgr. 14. gr. Í samræmi við ábendingar Fjármálaeftirlitsins er lagt til að í stað „reglna“ verði eftirlitinu falið að setja nánari „viðmið“ um þær upplýsingar sem greina þarf í tilkynningu.
                  c.      Lagðar eru til samsvarandi breytingar á c-lið 4. tölul. 46. gr. frumvarpsins (sjá d-lið 18. tölul. breytingartillögunnar).
     6.      Við 18. gr. Í 1. mgr. er fjallað um upplýsingar sem greina þarf í umsókn um starfsleyfi. Lagt er til í samræmi við ábendingar Fjármálaeftirlitsins að í 2. mgr. 18. gr. verði því falið að setja viðmið um slíka upplýsingagjöf í stað reglna.
     7.      Við 19. gr. og b-lið 4. tölul. 46. gr. Í 1. mgr. er fjallað um tilkynningarskyldu rafeyrisfyrirtækja vegna breytinga á áður veittum upplýsingum sem liggja til grundvallar starfsleyfi og í 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu falið að setja reglur um tilkynningarskylduna. Að mati eftirlitsins er ekki þörf á ákvæði 2. mgr. þar sem skyldan verður afdráttarlaust leidd af 1. mgr. 19. gr. Því er lagt til að 2. mgr. falli brott. Samsvarandi breyting er lögð til á b-lið 4. tölul. 46. gr. sem varðar breytingar á lögum um greiðsluþjónustu (sjá c-lið 18. tölul. breytingartillögunnar).
     8.      Við 20. gr. Lagt er til að orðið „hluthafar“ í 5. mgr. verði fellt brott. Í ákvæðinu kemur fram að Fjármálaeftirlitinu beri að synja um starfsleyfi ef það telur að hluthafar eða eigendur virkra eignarhluta séu ekki hæfir með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar fyrirtækisins. Eftirlitið lagði til við nefndina að tilvísun til hluthafa væri rétt að sleppa með hliðsjón af annarri löggjöf á fjármálamarkaði sem gerir ráð fyrir að mat á hæfi sé bundið við virka eigendur, þ.e. þegar eignarhlutur fer yfir 10%.
     9.      Við 23. gr. Lagt er til að við 1. mgr. bætist nýr málsliður er varðar heimild Fjármálaeftirlitsins til þess að setja reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur. Samhljóða breyting er lögð til á 1. mgr. 17. gr. laga um greiðsluþjónustu, sbr. g-lið 4. tölul. 46. gr. frumvarpsins (sjá e-lið 18. tölul. breytingartillögunnar).
     10.      Við 25. gr. Lagt er til að í stað orðsins „forgangskröfur“ í 4. mgr. greinarinnar komi orðið „sértökukröfur“ sem endurspeglar betur þann tilgang frumvarpsgreinarinnar að fjármunir sem mótteknir eru í skiptum fyrir rafeyri eiga að standa utan skuldaraðar, sbr. einnig 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991. Samhljóða breyting er lögð til á 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um greiðsluþjónustu, sbr. g-lið 4. tölul. 46. gr. frumvarpsins (sjá e-lið 18. tölul. breytingartillögunnar).
     11.      Við 26. gr. Lagt er til með hliðsjón af sjónarmiðum Samtaka fjármálafyrirtækja að bætt verði við 3. mgr. greinarinnar ákvæði um að í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur um hvernig staðið skuli að hæfismati stjórnarmanna og framkvæmdastjóra skv. 1. mgr. greinarinnar verði tekið mið af eðli starfsemi fyrirtækis og umfangi rekstrar. Breytingartillagan tekur mið af því að starfsheimildir rafeyrisfyrirtækja geta verið takmarkaðri en hefðbundnar starfsheimildir fjármálafyrirtækja og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið bent á að það sé í höndum Fjármálaeftirlitsins að meta, innan þess ramma sem lög um fjármálafyrirtæki setja um hæfismat, hversu langt beri að ganga hvað varðar hæfismat umræddra aðila.
     12.      Við 28. gr. Lögð er til orðalagsbreyting á 2. mgr. með hliðsjón af ábendingum Fjármálaeftirlitsins sem taldi ákvæðið ekki nægilega skýrt. Ákvæðið varðar samstarf eftirlitsaðila við framkvæmd eftirlits með starfsemi umboðsaðila, útibúa og útvistunaraðila hér á landi á vegum erlendra rafeyrisfyrirtækja.
     13.      Viðbótarákvæði og 4. tölul. 46. gr. Fjármálaeftirlitið taldi við umfjöllun málsins að í frumvarpið skorti ákvæði sem gerir ráð fyrir að íslensk rafeyrisfyrirtæki starfi utan Evrópska efnahagssvæðisins. Því er lagt til að eftirlitinu skuli tilkynnt um það fyrirfram ákveði íslensk rafeyrisfyrirtæki að hefja starfsemi utan EES. Samsvarandi breyting er lögð til á 4. tölul. 46. gr. frumvarpsins sem varðar breytingar á lögum um greiðsluþjónustu (sjá f-lið 18. tölul. breytingartillögunnar).
     14.      Við 34. gr. og 4. tölul. 46. gr. Lagt er til að heimild rafeyrisfyrirtækja með staðfestu utan EES til að hefja starfsemi hér á landi verði ekki einskorðuð við opnun útibúa heldur verði þeim einnig kleift að veita hér á landi þjónustu án stofnunar útibús. Samsvarandi breyting er lögð til á 4. tölul. 46. gr. frumvarpsins sem varðar breytingar á lögum um greiðsluþjónustu (sjá g-lið 18. tölul. breytingartillögunnar).
     15.      Við 35. gr. Lagt er til með hliðsjón af óskum Samtaka fjármálafyrirtækja að við greinina verði bætt ákvæði er varðar reglur Fjármálaeftirlitsins þar sem fram komi skilyrði sem innra eftirlitskerfi umboðsaðila þarf að uppfylla og hvernig meta skuli hæfi stjórnenda slíkra aðila.
     16.      Við 39. gr. Lagt er til að skylda rafeyrisfyrirtækja til að varðveita öll viðeigandi gögn verði sjö ár í stað fimm ára.
     17.      Við 45. gr. Lagt er til að gildistöku frumvarpsins verði frestað til 1. apríl 2013.
     18.      Við 46. gr. Í b-lið 2. tölul. er lögð til breyting á 15. gr. a. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þar sem fjallað er um þau tilvik þar sem heimilt er að beita einfaldaðri könnun á áreiðanleika viðskiptamanna. Frumvarpsgreinin gerir ráð fyrir að heimilt sé að beita slíkri aðferð í þremur tilvikum: a) þegar fjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 250 evrur þegar um er að ræða greiðslumiðil sem ekki er hægt að endurhlaða; b) þegar fjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 500 evrur þegar um er að ræða greiðslumiðil sem ekki er hægt að endurhlaða og aðeins er hægt að nota hérlendis; c) þegar heildarfjárhæð rafeyris sem geymd er á greiðslumiðli fer ekki yfir 2.500 evrur á almanaksárinu þegar um er að ræða endurhlaðanlegan greiðslumiðil, nema þegar handhafi innleysir rafeyri að hærri fjárhæð en 1.000 evrur innan sama almanaksárs.
                 Fjármálaeftirlitið telur að umrætt ákvæði frumvarpsins sé verulega óskýrt en ráðuneytið telur aftur á móti að ákvæðið sé ekki flóknara en þörf er á þar sem í ákvæðinu felist innleiðing á 19. gr. rafeyristilskipunarinnar.
                 Samtök fjármálafyrirtækja gera einnig verulegar athugasemdir við ákvæðið og telja að það kunni að raska samkeppnisstöðu innlendra rafeyrisfyrirtækja gagnvart öðrum útgefendum rafeyris með staðfestu í öðrum ríkjum. Með vísan til lögfræðiálits telja samtökin að sá skilningur sem ráðuneytið leggur til grundvallar á viðkomandi ákvæði tilskipunarinnar sé ekki réttur og að skýra eigi orðalagið þannig að ekki sé talað um greiðslumiðil sem „aðeins er hægt að nota hérlendis“ heldur „greiðslu/færslu sem á sér stað innanlands“ eða greiðslu/færslu sem á sér stað innan sama lands.
                 Á meðan ekki nýtur við annarra upplýsinga frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fellst nefndin á sjónarmið Samtaka fjármálafyrirtækja og leggur til breytingu á b-lið 2. tölul. 46. gr. til samræmis við ábendingar samtakanna.
                 Í h-lið 18. tölul. breytingartillögunnar er lögð til breyting á lögum um fyrningu kröfuréttinda sem felur í sér að fyrning krafna vegna rafeyris fari eftir sambærilegri reglu eins og gildir um innstæður. Um röksemdir vísast til umfjöllunar um II. kafla frumvarpsins hér að framan.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Eygló Harðardóttir og Lilja Mósesdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara. Fyrirvari Eyglóar er almennur. Fyrirvari Lilju lýtur að afmörkun á gildissviði frumvarpsins.
    Lilja Rafney Magnúsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Guðlaugur Þór Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 16. janúar 2013.

Helgi Hjörvar,
form., frsm.
Magnús Orri Schram.
Skúli Helgason.

Pétur H. Blöndal.
Eygló Harðardóttir,
með fyrirvara.
Lilja Mósesdóttir,
með fyrirvara.